Innlent

Vill koma skýrslum um banaslys inn í skólakerfið

Formaður rannsóknarnefndar umferðarslysa telur að koma verði kennslu um raunveruleg umferðarslys inn í skólana því áróður í fjölmiðlum fari framhjá stórum hópi ungmenna. Hann segir fulla ástæðu til þess að skoða lífstíl ungmenna því hann spái fyrir um áhættuhegðun þeirra í umferðinni.

Hraðakstur ungmenna hefur verið áberandi að undanförnu og hafa lögregla og fleiri sem að slysunum koma áhyggjur af sífelldum endurtekningum. Samkvæmt ársgömlum lögum ber Rannsóknarnefnd umferðarslysa að gera nákvæmar skýrslur um öll banaslys í umferðinni og miðla þeim áfram svo af þeim megi læra. Ásdís J. Rafnar, formaður nefndarinnar, hefur áhyggjur af því að uppýsingarnar séu ekki að ná nógu sterkt til ungmenna í gegnum auglýsingar og fréttir.

Ásdís hvetur til þess að skólar nýti skýrslur nefndarinnar í rannsóknar- og verkefnavinnu nemenda svo slysin sem orðið hafa verði þeim raunveruleg.

Hún segir mikilvægt að foreldrar miðli vitneskju til barna sinna sem þau sjá í fjölmiðlum og séu þeim góð fyrirmynd. En félagslegt umhverfi hefur veruleg áhrif á akstursvenjur ungmenna. Og hún telur ástæðu til að taka út og greina ungmenni sem sýna meiri áhættuhegðun og veita þeim meiri athygli og kennslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×