Innlent

Hyggjast sitja í anddyri Landsvirkjunar í dag

Lítill hópur fólks hefur komið sér fyrir í anddyri höfuðstöðva Landsvirkjunar við Háaleitisbraut og vill að fyllingu Hálslóns verði frestað. Talsmaður hópsins segir hann vera að bregðast við ákalli Ómars Ragnarssonar fréttamanns til þjóðarinnar.

Hópurinn kom klukkan níu í morgun í höfuðstöðvarnar og vildi ná tali af Friðrik Sophussyni forstjóra Landsvirkjunar. Hann er hins vegar í sumarfríi og því mættu aðrir fulltrúar fyrirtækisins og ræddu við hópinn. Ingvar Þórisson, talsmaður hópsins, segir hann fara með friði og að verið sé að bregðast við ákalli Ómars Ragnarssonar sem fylgdi Morgunblaðinu í gær. Hópurinn vilji að fyllingu Hálslóns verði frestað og að Alþingi fái að fjalla aftur um Kárahnjúkavirkjun í ljósi nýrra upplýsinga.

Ingvar segir hópinn einnig vekja athygli á svokallaðri Jökulsárgöngu sem skipulögð hafi verið á morgun með Ómari Ragnarssyni. Gengið verður frá Hlemmi að Austurvelli klukkan tuttugu annað kvöld til þess að vekja athygli á hugmyndum Ómars sem ganga út á að Hálslón verði ekki fyllt og Kárahnjúkavirkjun ekki ræst en raforku fyrir álver í Reyðarfirði verði aflað með jarðhitavirkjun á Norðausturlandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×