Innlent

Trúir ekki að Steingrímur hafi ekki spurt um leyniþjónustu

MYND/Vilhelm

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir að það væri með miklum ólíkindum ef embættismenn hefðu ekki upplýst Steingrím Hermannsson, fyrrverandi dóms- og kirkjumálaráðherra og forsætisráðherra um ráðstafanir lögreglunnar til að gæta öryggis ríkisins. Hafi Steingrími ekki verið sagt frá þessum grundvallaratriðum að fyrra bragði trúi hann ekki öðru en jafnathugull maður og Steingrímur hafi spurt.

Þetta kemur fram á heimasíðu Björns en þar er hann að bregðast við þeim orðum Steingríms um að hann hafi ekki vitað af starfsemi leyniþjónustu hér á landi í kalda stríðinu sem Þór Whitehead sagnfræðingur hefur sagt frá.

Steingrímur var dómsmálaráðherra 1978-1979. „Ég var skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu árið 1978, þegar Steingrímur varð ráðherra í fyrsta sinn og starfaði þá í eitt ár með Ólafi Jóhannessyni forsætisráðherra. Ég fullyrði, að þá var farið með þessi mál á sama veg í forsætisráðuneytinu og þegar Geir Hallgrímsson var forsætisráðherra 1974 til 1978 og Ólafur Jóhannesson, dóms- og kirkjumálaráðherra.

Á þessum árum beindist athygli á sviði innri öryggismála einkum að umsvifum sovéska sendiráðsins, eins og sjá má í blöðum frá þeim tíma," segir Björn á heimasíðu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×