Innlent

Verkefni flutt frá dómsmálaráðuneyti til sýslumanna

Dómsmálaráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun frumvarp til laga um flutning verkefna frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti til sýslumannsembætta. Í minnisblaði með frumvarpinu kemur fram að frumvarpið sé liður í áformum um að efla og styrkja sýslumannsembætti utan höfuðborgarsvæðisins með flutningi verkefna og starfa frá ráðuneytum og stofnunum til embættanna og jafnframt að flýta fyrir afgreiðslu mála.

Lagt er til að fjölmörg verkefni verði flutt til sýslumanna. Þau eru sjóðir og skipulagsskrár, allsherjarskrá um kaupmála, leyfi til að reka útfararþjónustu, málefni bótanefndar, leyfi til að annast öryggisþjónustu í atvinnuskyni, leyfi til ættleiðingar, löggilding dómtúlka og skjalaþýðenda og löggilding fasteignasala, happdrættisleyfi og eftirlit og útgáfa Lögbirtingarblaðs.

Ráðuneytið mun eftir sem áður fara með yfirstjórn málaflokkanna. Í frumvarpinu er almennt lagt til, vegna smæðar sumra sýslumannsembætta og takmarkaðs málafjölda í sumum málaflokkum, að dóms- og kirkjumálaráðherra geti falið einum sýslumanni að annast tiltekinn málaflokk.

„Í frumvarpinu er gert ráð fyrir veigamikilli breytingu varðandi úrræði aðila máls til að fá stjórnvaldsákvörðun endurskoðaða. Ákvarðanir sýslumanna í þeim málum sem frumvarpið gerir ráð fyrir að þeim verði falin verða kæranlegar til dómsmálaráðuneytisins. Er þetta fyrirkomulag um tvö stjórnsýslustig í samræmi við þau meginviðhorf í stjórnsýslurétti að aðili stjórnsýslumáls geti fengið stjórnvaldsákvörðun endurskoðaða hjá öðru stjórnvaldi en því sem ákvörðunina tók. Eðli máls samkvæmt sæta þau mál sem ráðuneytið tekur nú ákvarðanir í ekki endurskoðun annars stjórnvalds. Flutningur verkefna til sýslumanna og kæruheimild til ráðuneytisins stuðlar þannig að auknu réttaröryggi í stjórnsýslunni," segir að endingu í minnisblaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×