Innlent

Íbúðalánasjóður ekki lagður niður

Íbúðalánasjóður verður ekki lagður niður en ríkisábyrgð á húsnæðislánum verður víkjandi á næstu árum, ef tillögur stýrihóps ná fram að ganga.

Mikill þrýstingur hefur verið á stjórnvöld undanfarin misseri frá bönkunum að leggja niður Íbúðalánasjóð. Í febrúar var því settur á fót stýrihópur sem átti í samráði við hagsmunaaðila að móta tillögur um framtíð sjóðsins. Tillögurnar voru kynntar í dag og felast í því að draga úr ríkisábyrgð af lánum sjóðsins og taka upp nýja fjármögnun með útgáfu svokallaðra sérvarðra skuldabréfa.

Samkomulag um breytingar á framtíðarfyrirkomulagi Íbúðalánasjóðs náðist ekki milli hagsmunaaðila en allir voru þó sammála um mikilvægi þess að setja lög um áðurnefnd sérvarin skuldabréf. Ráðherra segir að þessi nýja fjármögnunarleið muni í engu breyta aðgangi fólksins í landinu að Íbúðalánasjóði og að vaxtakjör verði áfram hagstæð. Frumvarp um málið verður lagt fram strax í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×