Viðskipti erlent

Dow Jones nálægt sögulegu hámarki

Bandaríska Dow Jones hlutabréfavísitalan er við það að ná nýjum sögulegum hæðum. Ástæðan fyrir því er hækkun á gengi hlutabréfa á fjármálamörkuðum vestra í kjölfar bjartsýni fjárfesta vegna minnkandi verðbólgu. 

Lokagengi hlutabréfavísitölunnar stóð í 11.669,4 stigum í gær sem er einungis 80,88 punktum undir hæsta gildi vísitölunnar árið 2000.

Greiningaraðilar eru bjartsýnir á að vísitalan geti náð nýjum hæðum innan skamms enda hafi heimsmarkaðsverð á hráolíu lækkað talsvert auk þess sem búist er við að hækkanaferli seðlabanka Bandaríkjanna sé á enda.

Í kjölfar þess að netbólan sprakk skömmu eftir aldamótin tók hlutabréfavísitalan snarpa dýfu jafnt vestanhafs sem annarsstaðar og fór lægst í 7.286,27 stig í október árið 2002. Eftir það tók hún að hækka á ný.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×