Innlent

Ráðstefna um mikilvægi vetnistækni í Reykjavík

MYND/Hari
Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra setti í dag ráðstefnu um mikilvægi vetnistækni fyrir sjálfbæra þróun. Ráðstefnan er haldin í Reykjavík. Fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu að ráðherra hafi í ræðu sinni fjallað um aukið mikilvægi vistvænna orkugjafa í orkuöflun í heiminum og reynslu Íslendinga af nýtingu endurnýjanlegra orkulinda, sérstaklega á sviði jarðhita, en einnig áform um að nýta vetnistækni til að auka hlut endurnýjanlegrar orku enn frekar.

Fulltrúar tuttugu þróunarríkja taka þátt í ráðstefnunni sem utanríkisráðuneyti, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti og umhverfisráðuneyti standa að í samvinnu við efnahags- og félagsmálaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna. Þá tekur David Garman, aðstoðarorkumálaráðherra Bandaríkjanna, þátt í ráðstefnunni.

Ráðstefnan er liður í alþjóðlegu kynningarstarfi á áherslum Íslendinga á sviði orkumála og lýkur á morgun. Niðurstöðum hennar verður m.a. fylgt eftir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og með hugsanlegum samstarfsverkefnum á sviði orkumála í þróunarríkjum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×