Innlent

Losun koltvísýrings næstmest í Reykjavík á Norðurlöndum

MYND/Pjetur
Losun koltvísýrings vegna samgangna er næstmest í Reykjavík samkvæmt mælingum í sjö stórborgum á Norðurlöndunum. Þetta kom fram á stórborgaráðstefnu norrænu ríkjanna sem haldin var á dögunum og greint er frá á vef Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar. Þar segir enn femur að losun koltvísýrings vegna samgangna á hvern íbúa hafi reynst mest í Málmey í Svíþjóð en af höfuðborgum landanna hafi hún verið mest í Reykjavík.

Útstreymi koltvísýrings minnkaði á árabilinu 1990-2000 í öllum borgunum en jókst aftur eftir aldamótin nema í Málmey og Stokkhólmi. Telur Umhverfssvið það valda áhyggjum og getur sér þess til að aukið útstreymi megi rekja til aukinnar velmegunar á Norðurlöndum. Fram kemur að samgöngur í Reykjavík valda um 95 prósentum af útstreymi koltvísýrings en eins og kunnugt er hefur bílum á götum borgarinnar fjölgað mikið undanfarin ár.

Almenn orkunotkun á árabilinu 1990 til 2003 jókst mest í Gautaborg og Reykjavík en í Reykjavík vega samgöngur þyngst í aukningu orkunotkunar.

Þá segir í frétt Umhverfissviðs að borgirnar sjö glími við ólík verkefni þessu tengd. Í Helsinki í Finnlandi valdi húshitun með kolabrennslu langmestu útstreymi koltvísýrings og sömuleiðis í Kaupmannahöfn en Reykjavík sé slíkt útstreymi lægst því hér eru hús kynt með jarðvarma. Gautaborg er aftur á móti hæst þjóðanna í útblæstri þegar sjónum er beint að iðnaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×