Innlent

Tveir berjast um formennsku í Sambandi íslenskra sveitarfélaga

Frá Akureyri.
Frá Akureyri.

Nýr formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga verður kjörinn á landsfundi á morgun. Baráttan stendur einkum milli tveggja sveitarstjórnarmanna.

 

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri í Reykjavík lætur af embætti á morgun sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga eftir langa formannstíð. Í ræðu sem hann flutti í gær þakkaði hann fyrir sig en sagði þó að samskiptin milli ríkis og sveitarfélaga hefðu á köflum verið erfið og mætti úr bæta. Sérstaklega þykir sveitarstjórnarmönnum sem sum lagafrumvörp alþingis hafi haft mikinn kostnað í för með sér fyrir sveitarfélögin og þurfi því aukið samráð í framtíðinni.

Baráttan um arftaka Vilhjálms stendur einkum mili tveggja manna samkvæmt heimildum fréttastofu NFS af landsfundinum sem nú stendur yfir á Akureyri. Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, mun ekki hafa sóst eftir formannsstöðunni sem ef til vill gefur vísbendingar um að hann ætli sér aðra hluti í landsmálunum eins og ýjað hefur verið að.

Hins vegar eru Smári Geirsson, Fjarðarbyggð og Halldór Halldórsson, Ísafjarðarbæ, sagðir berjast um hylli landsfundargesta en þeir hafa báðir áhuga á formannssætinu. Kosið verður fyrir hádegi á morgun og ættu úrslit að liggja fyrir skömmu síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×