Innlent

Landsflug hefur sagt upp samningi um sjúkraflug til Eyja

Vestmannaeyjar
Vestmannaeyjar MYND/Vísir

Landsflug hefur sagt upp samningi sínum við heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneytið og Tryggingarstofnun ríkisins um sjúkraflug til Vestmannaeyja. Uppsögnin tekur gildi um næstu áramót og er uppsagnarfresturinn níu mánuðir.

Landsflug tók að sér sjúkraflug frá Vestmannaeyjum um síðustu áramót. Í sumar var skipaður starfshópur til að gera úttekt á sjúkraflugi í Vestmannaeyjum frá áramótum. Í skýrslunni kom meðal annars fram að ekki hafi verið staðið við viðbragðstíma í þremur sjúkraflugum af fjörtíu. Einnig gerðist það í um fjórtán daga á tímabilinu að engin sjúkraflugvél var staðsett í Vestmannaeyjum.

Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum hafa verið ósátt við þjónustu Landsflugs og hafa sagt að þau vilji ekki undir neinum kringumstæðum að heilbrigðisráðuneytið semji aftur við Landsflug.

Heilbrigðisráðuneytið hefur það nú til skoðunar hvort að styrkir til áætlunarflugs og sjúkraflugs í Vestmannaeyjum verið boðnir sameiginlega út en nýlega var ákveðið að styrkja áætlunarflug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×