Innlent

Flugmálayfirvöld ekki upplýst

Aðfaranótt föstudags fékk flugmálastjórn fyrirspurn frá Bournemouth á Bretlandi, um tvær rússneskar Blaccat sprengjuflugvélar sem voru á sveimi í grennd við landið. Flugmálastjórn sendi þegar fyrirspurn til ratsjárstofnunar og utanríkisráðuneytisins og upplýsti ráðuneytið á endanum að um væri að ræða vélar af æfingu rússneska hersins norður í höfum.

 

Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Flugmálastjórnar segir það afar óvenjulegt að flugmálayfirvöld séu ekki látin vita af slíkum æfingum, því þau beri ábyrgð á borgaralegu flugi og verði að vita af herflugvélum í grennd við landið. Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra segir að samkvæmt hennar upplýsingum hafi flugmálastjórn verið kunnugt um æfinguna, en vera megi að boðleiðir hafi ekki virkað sem skyldi. Rússnesku vélarnar hafi engin lög brotið, þær hafi aldrei flogið inn í íslenska lofthelgi og af þeim hafi ekki staðið nein ógn.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×