Innlent

Vonbrigði með flutning ratsjárstöðvar

Bæjarráð Bolungarvíkur lýsir yfir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun Ratsjárstofnunar að segja upp starfsfólki ratsjárstöðvarinnar á Bolafjalli og flytja hluta starfa þess til höfuðborgarsvæðisins. Í ályktun bæjarráðs segir;



Ratsjárstofnun heyrir undir stjórnvöld og ákvarðanir hennar eru því á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Þessi aðgerð er til þess fallin að stuðla að óöryggi og erfiðleikum fyrir fjölda einstaklinga og fjölskyldna á svæðinu. Á það ber að benda að liðlega 5% útsvarstekna Bolungarvíkurkaupstaðar hverfa með þessum starfsmönnum og er það talsvert högg fyrir bæjarfélagið.



Það er óskiljanlegt með öllu að hluti þessara starfa skuli fluttur á höfuðborgarsvæðið í ljósi atvinnuþróunar í landinu öllu. Í þéttbýliskjörnum höfuðborgarsvæðisins hefur þensla verið ríkjandi og skortur á vinnuafli fremur en hitt. Vestfjarðasvæðið hefur ekki notið þessarar þenslu nema síður væri og því með öllu óskiljanlegt að stjórnvöld sjái sig nú knúin til þess að flytja störf af svæðinu.



Bæjarráð lýsir fullri ábyrgð á hendur stjórnvöldum þegar teknar eru ákvarðanir af þessu tagi og þær slitnar úr samhengi við byggðastefnu eða stöðu mála í fjórðungunum.



Bæjarráð Bolungarvíkur skorar á ríkisstjórn Íslands að koma án tafar til móts við sveitarfélagið við uppbyggingu atvinnutækifæra á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×