Innlent

Sjálfstæðismenn takast á í Norðvesturkjördæmi

Valhöll
Valhöll MYND/Vísir
Sjálfstæðismenn takast á um það í Norðvesturkjördæmi hvort halda eigi prófkjör eða hvort stillt verði upp á lista flokksins fyrir næstu Alþingiskosningar.

Tveir ungir sjálfstæðismenn hafa lýst yfir áhuga á því að vera á lista flokksins í kjördæminu, þeir Bergþór Ólason, aðstoðarmaður samgönguráðherra, og Borgar Þór Einarsson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna og stjúpsonur Geirs H. Haarde, forsætisráðherra.

Flokkurinn fékk þrjá þingmenn kjörna í Norðvesturkjördæmi í Alþingiskosningunum 2003, ráðherrana Sturlu Böðvarsson og Einar K. Guðfinnsson auk Einars Odds Kristjánssonar. Þeir hafa allir lýst því yfir að þeir sækist eftir að halda áfram þingsetu.

Mjög hart var tekist á í prófkjöri flokksins fyrir síðustu kosningar og því hafa sumir flokksmenn í kjördæminu velt því upp hvort ekki væri réttara að stilla upp á lista nú.

Ákveðið verður á kjördæmaráðsfundi á Ísafirði á sunnudaginn hvor leiðin verður farin, prófkjör eða uppstilling.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×