Innlent

Frjálslyndi armurinn hefur náð yfirhöndinni

Frjálslyndur armur Sjálfstæðisflokksins hefur náð yfirhöndinni, segir stjórnmálafræðingur í framhaldi af því að Kjartan Gunnarsson hættir sem framkvæmdastjóri flokksins. Ungur lögmaður, Andri Óttarsson, tekur við þessari valdamiklu stöðu af Kjartani.

Eftir 26 ára starf sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins tilkynnti Kjartan Gunnarsson á miðstjórnarfundi upp úr hádegi í dag að hann væri hættur. Brotthvarf Kjartans er að hans eigin frumkvæði og hann hyggst halda áfram að starfa fyrir flokkinn en kveðst ekki á leið í framboð.

Andri Óttarsson sem tekur við af Kjartani á næstu vikum er rösklega þrítugur lögmaður og lagði í fyrra stund á meistaranám í mannréttindum. Honum líst vel á starfið en gerir ekki ráð fyrir stefnubreytingu við mannaskiptin.

Geir H. Haarde forsætisráðherra var kampakátur þegar hann gekk út af miðstjórnarfundinum í dag. Hann sagði Sjálfstæðisflokkinn þakklátan fyrir störf Kjartans Gunnarssonar og neitaði því að pólitík hefði áhrif á brottför hans. Þetta væru kynslóðaskipti.

Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur segir ýmislegt mega lesa í val á eftirmanni Kjartans Gunnarssonar, enda komi Andri úr ungliðahreyfingunni þar sem átökin milli frjálshyggjuarmsins og hins frjálslyndari hafi verið hvað skýrust. Segja megi að nú hafi frjálslyndi armurinn náð yfirhöndinni í flokknum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×