Innlent

ÍE gerir hlé á prófunum á tilraunalyfi

MYND/Vilhelm Gunnarsson

Íslensk erfðagreining hefur ákveðið að gera hlé á prófunum á tilraunalyfi meðal bandarískra hjartasjúklinga. Við reglubundnar leysnimælingar hafi komið í ljós að tíminn sem það tekur fyrir lyfið að losna úr töflum hafi lengst. Í tilkynningu frá félaginu segir að ekkert bendi til þess að þetta hafi haft áhrif á upptöku lyfsins hjá þátttakendum í rannsókninni, né á öryggi lyfsins.

Stjórnendur rannsóknarinnar telji þó mögulegt að þetta gæti að óbreyttu leitt til þess að töflurnar losuðu lyfið of hægt til að full virkni kæmi fram í prófununum. Íslensk erfðagreining hefur kynnt málið fyrir Bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitinu og vinnur nú að endurbótum á framleiðsluferli taflnanna.

Tilraunalyfinu er ætlað að draga úr myndu bólguvaka sem auka hættuna á hjartaáföllum hjá þeim sem beri áhættuarfgerð ákveðinna erfðavísa.

Á morgun, föstudaginn 6. október kl. 12, munu forsvarsmenn Íslenskrar erfðagreiningar ræða efni þessarar tilkynningar á símafundi sem sendur verður út á netinu á heimasíðu fyrirtækisins www.decode.com. Upptaka af fundinum verður aðgengileg á síðunni í að minnsta kosti viku eftir fundinn. Einnig verður hægt að hlusta á upptöku af fundinum með því að hringja í síma +1 320 365 3844. Aðgangskóðinn er 844516.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×