Körfubolti

NBA lið í eldlínunni í Evrópu

Phoenix Suns mætir liði Roma í kvöld klukkan 19 í beinni útsendingu á Ölveri í Glæsibæ
Phoenix Suns mætir liði Roma í kvöld klukkan 19 í beinni útsendingu á Ölveri í Glæsibæ NordicPhotos/GettyImages

Um þessar mundir eru fjögur lið úr NBA deildinni í körfubolta á æfingaferðalögum um Evrópu undir yfirskriftinni NBA Europe Live ´06. Körfuboltaáhugamenn geta fylgst með fjórum þessara leikja í beinni útsendingu á veitingastaðnum Ölveri í Glæsibæ.

Tveir leikir verða sýndir í beinni útsendingu í dag, en nú klukkan 16 hefst leikur rússneska liðsins BC Khimki og Los Angeles Clippers og í kvöld klukkan 19:00 verður leikur frá Ítalíu í beinni útsendingu en þar er um að ræða viðureign VL Roma og Phoenix Suns.

Á morgun, laugardag, verður leikur CSKA Moskva og LA Clippers sýndur beint í hádeginu klukkan 12 og á sunnudaginn tekur ísraelska liðið Maccabi Tel Aviv á móti San Antonio Spurs klukkan 14:00.

Þetta er kjörið tækifæri fyrir þá sem vilja taka forskot á sæluna fyrir keppnistímabilið í NBA sem hefst innan tíðar, en beinar útsendingar verða á hverju kvöldi á NBA TV á Digital Ísland.

NBA TV verður með beinar útsendingar frá leikjum á undirbúningstímabilinu líkt og áður og fyrsti leikurinn á dagskrá á tímabilinu verður viðureign Miami og Detroit í næstu viku - en þetta verður kynnt nánar hér á vísi fljótlega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×