Körfubolti

Skaut af byssu til að skakka leikinn

Stephen Jackson fékk á kjaftinn og var ekinn niður í gærkvöldi, en kappinn var að sjálfssögðu vopnaður og gat fælt árásarmennina frá með viðvörunarskotum úr byssu sinni
Stephen Jackson fékk á kjaftinn og var ekinn niður í gærkvöldi, en kappinn var að sjálfssögðu vopnaður og gat fælt árásarmennina frá með viðvörunarskotum úr byssu sinni NordicPhotos/GettyImages

Villingurinn Stephen Jackson og nokkrir félagar hans frá NBA liði Indiana Pacers lentu í vandræðum fyrir utan súlustað í Indianapolis í gærkvöldi þar sem þeir áttu í deilum við nokkra aðra gesti staðarins. Jackson fór verst út úr þessum viðskiptum en hann fékk hnefahögg og því næst var ekið á hann. Jackson stillti sjálfur til friðar með því að skjóta fimm skotum upp í loftið af skammbyssu sinni.

Enginn hefur enn verið handtekinn vegna atviksins, en með Jackson í för voru þeir Jamaal Tinsley, Marquis Daniels og Jimmy Hunter, sem allir leika með Pacers. Þeir Tinsley og Daniels voru líka vopnaðir, en allir þrír höfðu leyfi fyrir skotvopnum sínum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hinn skapheiti Jackson kemur sér í vandræði, en hann var einn þeirra sem hvað vasklegast gengu fram í áflogunum við áhorfendur í uppþotinu á leik Detroit og Indiana um árið.

Jackson er enn á skilorði vegna ólátanna í Detroit og því er ljóst að ekki má mikið útaf bera hjá honum svo honum verði einfaldlega stungið í grjótið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×