Körfubolti

Sex æfingaleikir í nótt

Ben Wallace stimplaði sig vel inn í lið Chicago með sinni frægu hörku og baráttu í teignum
Ben Wallace stimplaði sig vel inn í lið Chicago með sinni frægu hörku og baráttu í teignum NordicPhotos/GettyImages

Sex æfingaleikir voru á dagskrá á undirbúningstímabilinu í NBA liðna nótt. Ben Wallace stimplaði sig vel inn í lið Chicago Bulls sem vann nauman sigur á Washington Wizards.

Chicago tryggði sér góðan 87-86 sigur á Washington í blálokin á heimavelli sínum í nótt, í leik sem var sýndur beint á NBA TV á Digital Ísland. Leiktímanum var dreift vel á milli allra leikmanna liðsins og var Luol Deng stigahæstur heimamanna með 13 stig. Ben Wallace skoraði 7 stig og hirti 9 fráköst í sínum fyrsta leik fyrir liðið. Antonio Daniels skoraði 13 stig fyrir Washington.

Indiana lagði New Jersey heima 103-89. Antoine Wright skoraði 23 stig fyrir New Jersey og Al Harrington skoraði 21 stig og hirti 9 fráköst fyrir Indiana, en þetta var fyrsti leikur hans með liðinu síðan hann gekk í raðir þess á ný frá Atlanta Hawks.

Toronto lagði Boston 118-112 eftir framlengdan leik. Rajon Rondo skoraði 29 stig fyrir Boston og Paul Pierce skoraði 23 stig, en Chris Bosh var atkvæðamestur í liði Toronto með 22 stig, Jorge Garbajosa skoraði 18 stig og Andrea Bargnani skoraði 13 stig, en hitti mjög illa úr skotum sínum.

Minnesota lagði Milwaukee 98-93. Michael Redd skoraði 20 stig fyrir Milwaukee og þeir Charlie Villanueva og Ruben Patterson 14 hvor. Ricky Davis skoraði 22 stig fyrir Minnesota og Kevin Garnett 17.

Atlanta lagði Memphis 108-91. Joe Johnson skoraði 22 stig fyrir Atlanta og nýliðinn Rudy Gay skoraði 15 stig fyrir Memphis.

Loks hafði Seattle betur gegn Portland í grannaslagnum í norðvestri, þar sem Rashard Lewis skoraði 17 stig fyrir Seattle, en Zach Randolph var með 20 stig fyrir Portland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×