Sport

Grönholm sigraði í Tyrklandi

Grönholm hafði mikla yfirburði í Tyrklandi og á nú veika von um að ná Loeb að stigum
Grönholm hafði mikla yfirburði í Tyrklandi og á nú veika von um að ná Loeb að stigum NordicPhotos/GettyImages

Finnski ökuþórinn Marcus Grönholm á Ford sigraði örugglega í Tyrklandsrallinu sem fram fór um helgina og hefur því saxað á forskot heimsmeistarans Sebastien Loeb í stigakeppni ökumanna til heimsmeistara.

Grönholm kom í mark tæpum tveimur og hálfri mínútu á undan landa sínum Mikko Hirvonen sem einnig ekur á Ford, en Henning Solberg frá Noregi sem ekur á Peugeot varð í þriðja sæti.

Grönholm hefur því saxað tíu stig á forskot Loeb í stigakeppninni, en heimsmeistarinn gat ekki keppt í Tyrklandi vegna handleggsbrots. Ekki er loku fyrir það skotið að sá franski verði með í næstu keppni sem fram fer í Ástralíu dagana 27.-29. október.

Loeb hefur 25 stiga forskot á Grönholm í dag, en eftir ástralska rallið eru aðeins tvö mót eftir af heimsmeistaramótinu, Nýja Sjáland 17.-19. nóvember og svo verður síðasta keppnin í Wales dagana 1.-3. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×