Fótbolti

Guð­rún og Katla með stoð­sendingar í Íslendingaslag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Katla Tryggvadóttir og Guðrún Arnardóttir lögðu báðar upp mark þegar Rosengård tók á móti Kristianstad.
Katla Tryggvadóttir og Guðrún Arnardóttir lögðu báðar upp mark þegar Rosengård tók á móti Kristianstad. vísir/anton

Tvær íslenskar stoðsendingar litu dagsins ljós í Íslendingaslag Rosengård og Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Rosengård vann leikinn, 2-1, og komst þar með aftur á sigurbraut. Í síðustu umferð steinlá liðið fyrir Hammarby, 4-0.

Meistarar Rosengård eru í 4. sæti deildarinnar með níu stig. Kristianstad er í 10. sætinu með þrjú stig.

Guðrún Arnardóttir var á sínum stað í vörn Rosengård og á 26. mínútu lagði hún upp mark fyrir Beu Sprung. Snemma í seinni hálfleik kom Oona Sevenius heimakonum svo í 2-0.

Gestirnir gáfust ekki upp og á 75. mínútu lagði Katla Tryggvadóttir upp mark fyrir Beatu Olsson. Skömmu síðar var Katla, sem er fyrirliði Kristianstad, tekin af velli.

Þrátt fyrir góðan vilja tókst Kristianstad ekki að jafna og Rosengård fagnaði sigri. Guðný Árnadóttir og Alexandra Jóhannsdóttir léku allan leikinn fyrir Kristianstad. Ísabella Sara Tryggvadóttir sat allan tímann á varamannabekknum hjá Rosengård.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×