Innlent

Nýr diskur og nýr samningur

Frá undirritun samningsins í dag.
Frá undirritun samningsins í dag. MYND/Stefán Karlsson

Bubbi Morthens gaf út nýjan geisladisk og mynddisk í dag og við sama tækifæri undirritaði hann tímamótasamning við Senu um útgáfu verka sinna. Samningurinn tryggir fyrirtækinu útgáfurétt á allri tónlist Bubba fyrr og nú.

Verk Bubba í gegnum tíðina má finna á 183 plötutitlum sem innihalda yfir 600 verk. Á blaðamannafundi í dag kom fram að Sena eignast nú útgáfuréttinn á þeim.

Samningurinn er stærsti útgáfusamningur sem gerður hefur verið vegna tónlistarútgáfu á Íslandi og hljóðar upp á a.m.k. 10 nýjar breiðskífur á næstu 10 til 15 árum.

Mynddiskurinn ber heitið Bubbi 06.06.06, og er upptaka frá afmælistónleikkum Bubba frá í sumar, en þar komu fram utangarðsmenn, Egó og Gcd svo eitthvað sé nefnt. Í samningnum tryggir Sena sér einnig einkarétt á útflutningi og neitaði Bubbi ekki möguleikanum á því einhvern tíman í framtíðinni. Svo gæti vel verið að hann og útgefendur bættust í hóp þeirra sem ráðist inn í Danmörku þessa dagana, eins og Bubbi orðaði það.

Á geisladisknum eru 30 lög sem Bubbi samdi á árinu. Hann segir þema disksins gleði, ódrepandi lífsgleði, þakklæti og auðmýkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×