Innlent

Þurfa að kaupa upp bújarðir fyrir nýja stóriðju

Hvalfjarðarsveit þarf að kaupa upp bújarðir í grennd við Grundartangahöfn ef hugmyndir um nýja plássfreka stóriðju á svæðinu verða að veruleika.

Verksmiðjan, sem myndi framleiða svonefndan fjölkristalla kísilmálm, eða Poly Silicon, þyrfti um fjögur hundruð hektara landsvæði en verksmiðjuhúsin yrðu lágreist. Verksmiðjan þyrfti álíka mikla raforku og Járnblendiverksmiðjan og álverið á Grundartanga til samans.

Ekki yrði rykmengun frá henni að sögn Arnheiðar Hjörleifsdóttur, formanns umhverfisnefndar Hvalfjarðarsveitar, en hins vegar myndi hrein gufa koma upp af henni þegar framleiðslan yrði kæld. Hún kæmi af kælivatni og ekki lægi fyrir hvort mengun kynni að stafa af því þegar það rynni frá verksmiðjunni. Það myndi sem sagt ekkert bætast við rykmengun á svæðinu.

Talsmenn bandaríska fyrirtækisins, sem er að skoða möguleikann og voru hér á ferð í síðsutu viku, áætla að um 130 manns þyrftu til starfa í verksmiðjunni ef af yrði. Þeir eru nú að skoða land- og raforkukosti í ellefu öðrum löndum og skýrist ekki fyrr en eftir áramót hvaða staður þeim finnst fýsilegastur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×