Innlent

Halda fast við áform um hungurverkfall

Fangaklefi í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg.
Fangaklefi í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. MYND/Gunnar

Fangar í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg halda fast við áform sín um að fara í hungurverkfall á morgun nema að þeir fái skrifleg svör við óskum sínum um bætta aðstöðu.

Þeir vilja betri loftræstingu í klefum, betra fæði, sykurlausa drykki, endurskoðun dagpeninga, fjölnota líkamsræktartæki auk þess sem fangarnir vilja hafa aðgang að óháðum aðila sem verji rétt þeirra gagnvart fangelsisyfirvöldum.

Guðmundur Gíslason, forstöðumaður fangelsa höfuðborgarsvæðisins, sagði í samtali við NFS að þegar væri hafin vinna við að bæta úr smærri atriðum. Talsmaður fanganna segir að maturinn hafi batnað til muna og verið sé að tryggja það að þeir sem þurfi sérfæði vegna sjúkdóma fái það. Viftur séu líka komnar inn á þau herbergi þar sem það var nauðsynlegt. Talsmaðurinn segir að þrátt fyrir þessar úrbætur, sé krafa þeirra að fá skrifleg svör þar sem þeir sendu inn skriflega beiðni og ef þeir fá þau ekki fyrir klukkan fjögur á morgun fari þeir í hungurverkfall.

Guðmundur reiknar ekki með að hægt verði að gefa nema mjög takmörkuð skrifleg svör fyrir klukkan fjögur á morgun, því margt af þessu krefjist lagabreytinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×