Innlent

Fastir í snjó á sumardekkjum á Landmannaleið

Landmannalaugar
Landmannalaugar MYND/Vísir

Flugbjörgunarsveitin á Hellu kom tveimur hröktum ferðalöngum til bjargar eftir að þeir festu bíl sinn í snjó á Landmannaleið.

Mennirnir tveir, Íslendingur og útlendingur, lögðu af stað inn í Landmannalaugar í gær og á leið sinni til baka festu þeir jeppa sinn, af gerðinni Mitsubishi Pajero, í snjó en bílinn var á sumardekkjum.

Þeir reyndu hvað þeir gátu í gærkvöldi og í nótt til að losa bíl sinn. Eftir að ljóst var að það gekk ekki héldu þeir fótgangandi áleiðis til byggða til að reyna að ná símasambandi. Þeir náðu sambandi við Neyðarlínuna og var Flugbjörgunarsveitin á Hellu send eftir mönnunum.

Björgunarsveitarmenn náðu í mennina, fóru með þá að bíl sínum, drógu bílinn upp og fylgdu mönnunum til byggða. Þangað voru þeir komnir á þriðja tímanum í dag. Ekkert amaði að mönnunum en þeim var orðið töluvert kalt.

Svavar Lárusson, formaður Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu, segir töluverðan snjó á veginum en hann sé niðurgrafinn á köflum, nokkuð vandamál geti því verið fyrir óbreytta jeppa að keyra inn í Landmannalaugar eins og færðin er nú. Svavar segir alltaf nokkuð um að björgunarsveitarmenn þurfi að aðstoða fólk sem fer illa búið á fjöll en svipað atvik átti sér stað síðustu helgi.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×