Innlent

400 hafa greitt atkvæði í prófkjöri sjálfstæðismanna

MYND/Pjetur

Um fjögur hundruð manns hafa þegar kosið utankjörfundar í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavíkurkjördæmunum vegna komandi þingkosninga. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hófst þann 11. október en hið eiginlega prófkjör fer fram á föstudag og laugardag.

Að sögn Ágústs Ragnarssonar, sem sæti á í yfirkjörstjórn flokksins, verður kosið í Valhöll á föstudag en á sjö stöðum í átta kjörhverfum borgarinnar á laugardag. Fyrstu tölur úr prófkjörinu verða birtar þegar kjörfundi lýkur klukkan sex á laugardag en vonast er til að endanleg niðurstaða liggi fyrir um ellefuleytið um kvöldið.

Ágúst segir nokkur hundruð manns hafa skráð sig í flokkinn í aðdraganda prófkjörsins og er búist við að svipaður fjöldi taki þátt í prófkjörinu og í prófkjöri fyrir borgarstjórnarkosningarnar í fyrra eða um tólf þúsund manns. Til samanburðar tóku á bilinu sjö til átta þúsund manns þátt í prófkjöri flokksins í Reykjavík fyrir síðustu alþingiskosningar.

Nítján eru í framboði, sjö konur og og tólf karlar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×