Enski boltinn

Gefur Aaron Lennon aðvörun

Martin Jol heldur hinum 19 ára gamla Aaron Lennon á jörðinni
Martin Jol heldur hinum 19 ára gamla Aaron Lennon á jörðinni NordicPhotos/GettyImages

Martin Jol hefur sent enska landsliðsmanninum Aaron Lennon aðvörun og hvetur hann til að ná meiri stöðugleika í frammistöðu sína með Tottenham - ella verði hann á fá sér sæti á varamannabekknum.

Lennon er aðeins 19 ára gamall og hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn eftir að hann fékk fyrir tilviljun tækifæri í byrjunarliðinu á síðustu leiktíð. Lennon hefur á tíðum verið besti maður Tottenham á þessari leiktíð, en stjóra hans finnst vanta stöðugleika hjá honum.

"Ef Aaron spilaði alltaf eins og hann getur best, væri ég ekki í nokkrum vafa um að hann væri alltaf í byrjunarliði mínu. Ef hann hinsvegar spilar oftar eins og hann gerði gegn Watford um síðustu helgi, verður hann bara að sitja á bekknum," sagði Jol.

"Leikmenn á borð við Lennon eru fátíðir og ég veit ekki nema um tvo eða þrjá svona leikmenn í Hollandi. Hér á Englandi eru það kannski Ryan Giggs, Cristiano Ronaldo og Shaun Wright-Phillips sem búa yfir svipaðri færni, en menn á borð við þá verða að komast framhjá andstæðingum sínum og það er þeirra hlutverk. Ef Lennon gerir það ekki, verð ég að skipta honum út fyrir reyndari leikmann," sagði Jol en það verður að teljast nokkuð einkennilegt að hann skuli velja sér Aaron Lennon til að gagnrýna úr leikmannahópi sínum á meðan reyndari leikmenn eins og Jermaine Jenas hafa á tíðum orðið sér til háborinnar skammar á vellinum á leiktíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×