Það verður sannkallaður risabardagi á dagskrá í boxinu á Sýn á laugardagskvöld þegar hinn ósigraði Floyd Mayweather mætir argentínska öskubuskuævintýrinu Carlos Baldomir. Mayweather er almennt talinn besti hnefaleikari heimsins pund fyrir pund, en Baldomir hefur unnið tvo mjög sterka boxara í síðustu tveimur bardögum sínum og hefur ekki tapað í átta ár.
Mayweather hefur verið ósigrandi allan sinn feril en hefur undanfarið verið sakaður um að þora ekki að mæta hátt skrifuðum áskorendum sem óska þess að fá að berjast við hann. Hann sigraði síðast Zab Judah á stigum í bardaga sem sýndur var á Sýn, en þess bardaga var í raun helst minnst fyrir það að uppúr sauð milli horna hnefaleikaranna og voru öryggisverðir lengi að skakka leikinn.
Baldomir sigraði þá Judah og Arturo Gatti mjög óvænt í síðustu tveimur viðureignum sínum og þó hann búi ekki yfir sömu náttúrulegu hæfileikum og Mayweather, er það greinilega enginn aukvisi á ferðinni. Mikið hefur verið ritað um þennan bardaga vestanhafs, en þó veðmangarar hallist að sigri Mayweather, vilja margir meina að hann eigi eftir að verða hnífjafn.
Mayweather gerði sitt til að auka á dramatíkina í hringnum annað kvöld þegar hann skvetti vatni á andstæðing sinn á blaðamannafundi fyrir bardagann og litlu munaði að til slagsmála kæmi í kjölfarið.
Það verður því forvitnilegt að sjá hvort áhorfendur Sýnar fá óvænt tíðindi í beinni útsendingu á laugardagskvöld, en útsending hefst klukkan 2 eftir miðnætti.