Körfubolti

Íslandsmeistararnir höfðu betur í toppslagnum

Jeb Ivey og félagar í Njarðvík eru ósigraðir á toppnum í úrvalsdeild karla í körfubolta
Jeb Ivey og félagar í Njarðvík eru ósigraðir á toppnum í úrvalsdeild karla í körfubolta Mynd/Vilhelm

Íslandsmeistarar Njarðvíkur eru eina taplausa liðið í úrvalsdeild karla í körfubolta eftir leiki kvöldsins en liðið lagði granna sína frá Grindavík í einvígi taplausu liðanna í kvöld 76-73.

Brenton Birmingham var stigahæstur í liði Íslandsmeistaranna með 19 stig og hirti auk þess 7 fráköst og Egill Jónasson skoraði 15 stig á aðeins 21 mínútu áður en hann þurfti að fara af velli með sína fimmtu villu.

Hjá Grindavík var Þorleifur Ólafsson stigahæstur með 22 stig og hirti 7 fráköst, Páll Kristinsson skoraði 19 stig og hirti 8 fráköst og Steven Thomas skoraði 14 stig og hirti 12 fráköst. Athygli vekur að skorarar á borð við Jeb Ivey og Pál Axel Vilbergsson höfðu ansi hægt um sig í leiknum og skoruðu þeir aðeins 8 og 7 stig í kvöld. 

Snæfell lagði ÍR í Seljaskóla 74-61 þar sem Hlynur Bæringsson var atkvæðamestur í liði Snæfells með 24 stig og hitti 10 af 13 skotum sínum í leiknum og Justin Shouse skoraði 14 stig og stal 6 boltum. Eiríkur Önundarson og Sveinbjörn Claessen skoruðu 13 stig hvor í slöku liði ÍR.

KR rótburstaði Hauka í Hafnarfirði 120-78. Tyson Patterson skoraði 21 stig, hirti 7 fráköst og gaf 7 stoðsendingar hjá KR, Fannar Ólafsson skoraði 18 stig og hirti 10 fráköst og Jeramiah Sola skoraði 15 stig. Roni Leimu skoraði 14 stig fyrir Hauka og Sveinn Sveinsson 12.

Keflavík lagði Þór í Þorlákshöfn 107-68

Njarðvík hefur unnið alla fimm leiki sína í deildinni til þessa, en Grindavík, Snæfell og KR hafa unnið 4 leiki og tapað 1.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×