Innlent

Danskur lögfræðingur og rússneskur ráðherra í umfjöllun Ekstra Bladet

Hjálparhella íslenskra kaupsýslumanna í Danmörku, danski lögmaðurinn Jeff Galmond, og rússneski fjarskiptaráðherrann eru í aðalhlutverki fréttaskýringar Ekstra-blaðsins danska í dag um íslensku útrásina.

Á forsíðu Ekstra-blaðsins í dag er ekki minnst á íslenska kaupsýslumenn en inni í blaðinu er opnugrein um fjarskiptaráðherra í ríkisstjórn Pútíns í Rússlandi. Sá heitir Leoníd Reiman sem mun hafa þegið eina milljón dollara í mútur fyrir fjórtán árum og skömmu síðar flutt mútuféð til Danmerkur með aðstoð fyrrnefnds lögmanns, Jeff Galmond, og keypt sér sumarhús í Danmörku.

Það mun hafa verið breskur kaupsýslumaður sem bar fé á Reiman í tengslum við stofnun símafyrirtækis í Sankti Pétursborg. Samkvæmt skjölum sem Ekstra-blaðið hefur undir höndum var það Jeff Galmand sem sá um allar peningafærslurnar en hann hafnar alfarið öllum slíkum ásökunum í samtali við Ekstra-blaðið í dag.

Ekki er minnst á Íslendinga í greininni í dag að öðru leyti en því að lögmaður Íslendinga er, staðhæfir Ekstrablaðið, bendlaður við leppfyrirtæki og peningaþvætti á rússnesku fé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×