Viðskipti erlent

Hráolíuverð lækkaði

Bensíndæla.
Bensíndæla.

Heimsmarkaðsverð á hráolíu lækkaði í dag þrátt fyrir að ákvörðun OPEC, samtök olíuútflutningsríkja, um samdrátt í olíuframleiðslu til að sporna gegn frekari verðlækkunum á hráolíu, gekk í gildi á miðvikudag í síðustu viku. Ekki er talið víst að eining sé um ákvörðunina innan aðildarríkja OPEC.

Verð á hráolíu fór hæst í rúma 78 dali á tunnu um miðjan júlí í sumar en hefur hríðlækkað síðan þá og hefur síðastu vikurnar verið á verðbilinu 57 til 61 dalur á tunnu.

Ákvörðun OPEC felur í sér að minnka olíuframleiðslu um 1,2 milljónir tunna á dag til að draga úr umframbirgðum á hráolíu og sporna þannig gegn frekari verðlækkunum.

Verð á hráolíu, sem afhent verður í næsta mánuði, lækkaði um 46 sent á markaði í New York í Bandaríkjunum í dag og stendur nú í 58,68 dölum á tunnu. Verð á Norðursjávarolíu lækkaði hins vegar um 45 sent á markaði í Lundúnum í Bretlandi og fór tunnan á 58,70 dali.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×