Innlent

Tekist á um horfur í efnahagslífinu

Forsætisráðherra staðhæfði á Alþingi í dag að þenslan væri á mikilli niðurleið og spenna mjög að minnka í efnahagslífinu. Formaður Vinstri grænna fullyrti hins vegar á móti að ekkert gengi að vinna á jafnvægisleysinu.

Steingrímur J. Sigfússon gerði nýjasta mat Seðlabankans á stöðu efnahagsmála að umtalsefni þegar hann spurði forsætisráðherra hvort ríkisstjórnin hygðist bregðast við, til dæmis með því að falla frá stóriðjustefnu eða skattalækkunum.

Geir H. Haarde sagði skýrslu Seðlabankans mikilvægt innlegg þótt ekki væri hann ætíð sammála bankanum. Geir sagðist ósammála því að hér á landi sé ekki verið að draga úr þenslu. Geir sagði að þenslan væri á niðurleið og benti í því samhengi á hagstæð tilboð sem Vegagerðinni hafa borist í ný verkefni. Tilboðin væru til marks um að spennan á þessu sviði fari minnkandi. Geir sagði allar efnahagsspár, þar á meðal spá Seðlabankans, sýna fram á að spennan, sem verið hefur í efnahagslífinu á undanförnum mánuðum, sé að minnka.

Steingrímur J. Sigfússon sagði ástæðu til að hafa miklar áhyggjur. Enn örli ekki á því að ríkisstjórnin annars vegar og Seðlabankinn hins vegar séu að ná neinum takti í því að ná föstum tökum á íslenska hagkerfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×