Innlent

Samþykkt að leita eftir tillögum að frístundakorti

Borgarráð samþykki á fundi sínum í morgun að fela Íþrótta- og tómstundaráði og ÍTR að vinna tillögur að svokölluðu frístundakorti vegna þátttöku barna og unglinga á aldrinum 6-18 ára í æskulýðs, íþrótta- og menningarstarfi í borginni.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að frístundakortið skuli innleitt í þremur áföngum á næstu tveimur árum. Sá fyrsti verður næsta haust og þá er miðað við 12 þúsund króna framlag frá borginni til hvers barns, þá 25 þúsund króna framlag 1. janúar 2008 og loks 40 þúsund króna framlag frá og með 1. janúar 2009.

Miðað við 70 prósenta nýtingu á styrkjunum verður kostnaður borgarinnar á árinu 2007 180 milljónir króna, 400 milljónir á árinu 2008 og 640 milljónir á árinu 2009. Gert er ráð fyrir að tillögurnar verði lagðar fyrir íþrótta- og tómstundaráð og borgarráð 1. desember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×