Viðskipti innlent

Sparisjóðir Keflavíkur og Ólafsvíkur sameinast

Merki Sparisjóðs Keflavíkur.
Merki Sparisjóðs Keflavíkur. Mynd/Páll

Stjórnir Sparisjóðsins í Keflavík og Sparisjóðs Ólafsvíkur hafa undirritað áætlun um samruna sparisjóðanna sem miðast reikningslega við 1. júlí 2006. Fréttablaðið greindi frá þessu í blaðinu í dag þar sem segir að stefnt sé að fullum samruna sjóðanna fyrir áramót eftir samþykki fundar stofnfjáreigenda.

Í tilkynningu frá sparisjóðunum segir að í tillögu sem lögð verður fyrir fund stofnfjáreigenda er gert ráð fyrir því að eigið fé hins sameinaða sjóðs verði um 8 milljarðar króna. Við samrunann verður miðað við sama hlutfall á milli stofnfjár og annars eigin fjár í báðum sjóðunum. Til að ná því markmiði hefur verið ákveðin aukning stofnfjár í Sparisjóði Ólafsvíkur.

Í hinum sameinaða sjóði munu stofnfjáreigendur í Sparisjóði Ólafsvíkur eiga um 3,2 prósent en eigendur stofnfjár í Sparisjóðnum í Keflavík 96,8 prósent.

Rekstur beggja sjóða hefur gengið vel og þeir hyggjast halda áfram stöðu sinni sem máttarstólpar í heimabyggð. Það er markmið stjórna sjóðanna með tillögu um sameiningu að efla starfsemi á starfssvæðum sínum og sækja fram á nýjum vettvangi, að því er segir í tilkynningunni.

Þá segir ennfremur að stjórnirnar telji sameiningu sparisjóða nauðsynlega til að mæta kröfum tímans um alhliða og hagkvæma fjármálaþjónustu við einstaklinga og fyrirtæki. Þau markmið fara saman við þá skyldu að efla hag stofnfjáreigenda og starfsfólks sjóðanna.

Tilkynning frá sparisjóðunum til Kauphallar Íslands






Fleiri fréttir

Sjá meira


×