Viðskipti innlent

Íbúðalán banka jukust um 20 prósent

Nýbygging.
Nýbygging. Mynd/GVA

Íbúðalán bankastofnana námu 3,8 milljörðum króna í síðasta mánuði en þetta er 20 prósenta aukning á milli mánaða. Útlánaaukningin helst í hendur við aukna veltu á fasteignamarkaði í október en alls voru 388 íbúðalán veitt í mánuðinum og var meðallánsupphæð 9,8 milljónir króna.

Greiningardeild Kaupþing segir í Hálffimmfréttum sínum í dag að töluvert hafi dregið úr útlánum bankakerfisins til íbúðarkaupa á þessu ár en á fyrstu tíu mánuðum ársins námu veitt íbúðlán bankakerfisins 65 milljörðum króna samanborið við 177,5 milljarða króna á sama tíma í fyrra.

Útlán bankakerfisins til íbúðakaupa hafa því dregist saman um 63 prósent á þessu ári miðað við sama tíma í fyrra. Samdráttinn má einkum rekja til minni veltu á fasteignamarkaði nú en í fyrra. Auk þess hefur dregið töluvert úr endurfjármögnun íbúðalána, sem fyrir ári síðan var stór hluti af heildarútlánum bankakerfisins, að sögn greiningardeildar Kaupþings.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×