Viðskipti erlent

Tap hjá Vodafone Group í Evrópu

Mynd/AFP

Farsímafélagið Vodafone Group, sem er ein stærsta farsímasamtæða í heimi, skilaði 5,1 milljarðs punda taprekstri á fyrri helmingi rekstrarársins, sem lauk í enda september. Þetta svarar til 664 milljarða íslenskra króna. Tapið er að mest tilkomið vegna vandræða í rekstri félagsins í Þýskalandi og á Ítalíu. Hagnaðurinn jókst á sama tíma um 31,5 prósent í Bandaríkjunum.

Á sama tíma í fyrra skilaði félagið 2,77 milljarða punda hagnaði eða 360,6 milljörðum íslenskra króna.

Tekjur Vodavone Group námu 15,6 milljörðum punda en það er 6,9 prósenta aukning á milli ára.

Tapið í Þýskalandi og á Ítalíu er tilkomið vegna afskrifta á eignum fyrir jafnvirði 8,1 milljarð pund eða 1.054 milljarða íslenskra króna, auk harðar samkeppni í báðum löndunum.

Arun Sarin, forstjóri Vodafone Group, var hins vegar bjartsýnn á afkomuna og sagði hana í samræmi við áætlanir félagsins.

Þá nam hagnaður af rekstri Vodafone í Bandaríkjunum á sama tímabili 1 milljarði punda eða 130,2 milljörðum íslenskra króna, sem er 31,5 prósenta aukning á milli ára.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×