Innlent

Ekki á döfinni að flytja Landhelgisgæsluna til Keflavíkur

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, telur ekki forgangsverkefni að flytja Gæsluna til Keflavíkur.
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, telur ekki forgangsverkefni að flytja Gæsluna til Keflavíkur. MYND/Daníel
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sagði við utandagskrárumræðu á Alþingi í dag að það væri ekki útilokað að flugstarfssemi Landhelgisgæslunnar verði flutt til Keflavíkur. Sagði hann þó að það væri ekki forgangsverkefni og að nú væri mikilvægasta verkefnið að huga að ytri umgjörð starfssemi Landhelgisgæslunnar.

Björn benti á að miklar breytingar væru í gangi hjá Landhelgisgæslunni, samanber breyttum lögum um hana, endurnýjun þyrlukosts og flutning hennar í Skógarhlíð. Þeir þættir væru aðalatriðið um þessar mundir og því væri það ekki forgangsatriði að starfssemi Landhelgisgæslunnar yrði flutt frá Reykjavíkurflugvelli eða hún brotin þannig upp að hún yrði á fleiri stöðum á landinu. Björn taldi það seinni tíma mál.

„Fari svo að það verði þrengt þannig að starfsvettvangi Gæslunnar á Reykjavíkurflugvelli, að hún hafi ekki rými til þess að starfa þar, þá liggur í augum uppi að þá verður að flytja flugdeildina annað. Þá er Keflavíkurflugvöllur að sjálfsögðu, og sú aðstaða sem þar er, fyrsti kostur sem menn hljóta að velta fyrir sér," sagði Björn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×