Viðskipti innlent

Íbúðaverð lækkar á höfuðborgarsvæðinu

Reykjavík.
Reykjavík.
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 2,2% á milli september og október. Þetta kemur fram í tölum sem Fasteignamat ríkisins birti í gær. Greiningardeild Glitnis segir í Morgunkorni sínu í dag að íbúðaverð hafi verið sveiflukennt að undanförnu, bæði hækkað og lækkað á víxl á milli mánaða.

Verð á fjölbýli lækkaði um 1,7% á milli september og október en verð á einbýli lækkaði hins vegar um 3,2% á milli mánaðanna. Yfir síðustu sex mánuði hefur verð á fjölbýli lækkað um 0,3% en verð á einbýli hefur hins vegar lækkað um 2,7% á sama tíma.

Greiningardeildin segir það gefa gleggri mynd af þróuninni að skoða lengri tíma. Síðastliðið hálft ár hefur íbúðaverð lækkað um 0,5% á höfuðborgarsvæðinu, að sögn deildarinnar, sem bætir því við að á móti hafi veltan á markaðinum tekið aðeins við sér frá því hún náði lágmarki í lok sumars. Gefi það til kynna að markaðurinn sé ef til vill ekki jafn veikburða og útlit var fyrir.

Í júní spáði greiningardeildin að íbúðaverð myndi lækka um 5% til 10% á næstu tveimur árum. Nú hefur íbúðaverð lækkað um tæpt prósent síðan í júní og bendir deildin á að gangi spáin eftir merki það einungis að íbúðaverð fari á sömu slóðir og það var á við lok síðasta árs. Hins vegar bendir margt til þess að neðri endi spábilsins sé nú ólíklegri en áður í ljósi þess að útlán til íbúðakaupa hafa aukist aðeins á ný og væntingar almennings hafa tekið við sér, að sögn greiningardeildar Glitnis.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×