Innlent

Leið yfir förgun fuglanna

Það var dauft yfir Húsdýragarðinum í dag enda síðasti dagur flestra fuglanna þar á morgun, en þeim verður fargað eftir helgi vegna hættu á fuglaflensu.

Landbúnaðarráðherra hefur fyrirskipað að öllum fuglum í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum skuli fargað og er starfsfólkinu þar brugðið og finnst aðgerðirnar harkalegar.

56 fuglar af sjö tegundum eru í garðinum. Aligæsum, aliöndum, haughænsnum, skrautdúfum, fasönum og heiðlóu verður fargað. Lífi arnarins Sigurarnar og lífi tveggja fálka verður þyrmt. Beðið er eftir nógu góðu veðri svo Sigurörn geti fengið frelsi að nýju. Fálkunum verður sleppt þegar heilsa þeirra verður orðin nógu góð.

Það var ekki flensa sem fannst í fjórum hænsnum heldur mótefni. Það þýðir að flensa hefur einhverntíma komið upp í fuglunum án þess að þeir hafi orðið veikir. Ekki er um að ræða fuglaflensu af stofninum H5N1 sem hefur orðið fólki að bana.

Í þrjá mánuði verður fuglalaust í Húsdýragarðinum vegna sótthreinsunar en síðan verður reynt að fá nýja fugla. Það getur tekið tíma því sumar skrautdúfurnar verður að flytja inn sem er mjög erfitt eftir að fuglaflensa kom fyrst upp. Tómas Guðjónsson, forstöðumaður í Húsdýragarðinum, vonar að hjálp fáist frá yfirvöldum við að fá nýja fugla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×