Sport

Stofnun hlutafélags um stóðhestinn Þrist frá Þorlákshöfn

Ákveðið hefur verið að stofna hlutafélag um stóðhestinn Þrist frá Þorlákshöfn, brúnskjóttan 5 vetra gamlan úr ræktun Þórarins Óskarssonar í Þorlákshöfn. Forsvarsmaður hlutafélagsins er Sæmundur T. Halldórsson, Miklagarði við Akranes. Þristur er undan hinum litfagra Randver frá Nýjabæ og kynbótahryssunni Koltinnu frá Þorlákshöfn.

Koltinna er mjög farsæl kynbótahryssa, þrjú afkvæmi hennar hafa skilað sér í kynbótadóm og meðaleinkunn þeirra fyrir byggingu er 8,35 og fyrir hæfileika 8,20, aðaleinkunn 8,26. Þristur er ungur alhliða hestur, gullfallegur og drjúggóður alhliða gæðingur.

Stofnfundur verður haldinn að Ingólfshvoli í Ölfusi, laugardaginn 25. nóvember næstkomandi klukkan 19:00. Verð á hvern hlut er 60.000 kr. Allir eru velkomnir að berja Þrist augum og taka þátt í fundinum hvort sem þeir hyggjast á kaup eða ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×