Enski boltinn

Chelsea stendur í stað

Cristiano Ronaldo hefur nú riðið á vaðið í sálfræðistríðinu fyrir leik United og Chelsea á sunnudaginn
Cristiano Ronaldo hefur nú riðið á vaðið í sálfræðistríðinu fyrir leik United og Chelsea á sunnudaginn NordicPhotos/GettyImages

Portúgalski vængmaðurinn Cristiano Ronaldo hjá Manchester United hefur nú sent Englandsmeisturum Chelsea góða pillu fyrir stórleik liðanna á Old Trafford á sunnudaginn, en hann segir að lið Chelsea hafi staðið í stað í vetur þrátt fyrir að eyða stórum fjárhæðum í stjörnuleikmenn í sumar.

"Leikurinn við Chelsea er augljóslega gríðarlega mikilvægur fyrir okkur, því liðin eru í nokkrum sérflokki í deildinni það sem af er og nokkuð jöfn að stigum. Það kemur sér vel fyrir okkur, því við leyfðum þeim að stinga af í fyrra en nú er allt annað uppi á teningnum.

Mér sýnist á öllu að Chelsea sé á ósköp svipuðum stað í ár og liðið var í fyrra og kaupin á Ballack og Shevchenko hafa ekki veitt liðinu þá miklu yfirburði sem allir spáðu í sumar. Menn verða að leggja hart að sér til að vinna og liðið er bara að gera það sem það þarf til að vinna. Það er auðvitað smá rígur milli United og Chelsea - en ég verð ekki var við að það sé sami rígur milli okkar og Chelsea og sá sem er til að mynda í viðureignum okkar við Manchester City, Liverpool og Arsenal," sagði Ronaldo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×