Körfubolti

Tíu sigrar í röð hjá Dallas

Devin Harris hjá Dallas keyrir hér framhjá Ricky Davis hjá Minnesota í leik liðanna í nótt
Devin Harris hjá Dallas keyrir hér framhjá Ricky Davis hjá Minnesota í leik liðanna í nótt NordicPhotos/GettyImages

Dallas vann í nótt 10. leikinn í röð í NBA deildinni þegar liðið vann sigur á Minnesota 93-87 í beinni útsendingu á NBA TV sjónvarpsstöðinni. Josh Howard og Dirk Nowitzki skoruðu 15 stig hvor fyrir Dallas en Kevin Garnett skoraði 19 stig og hirti 12 fráköst fyrir Minnesota.

45 stig frá Allen Iverson dugðu skammt gegn Miami Heat, sem vann Philadelphia 103-91. Þetta var fyrsti sigur Miami á heimavelli í síðustu fjórum leikjum. Dwyane Wade skoraði 33 stig, gaf 13 stoðsendingar og hirti 7 fráköst fyrir Miami - og varð með því fyrsti maðurinn til að skora yfir 30 stig og gefa amk 12 sendingar í þremur leikjum í röð síðan Kevin Johnson hjá Phoenix Suns náði þeim áfanga árið 1989.

Orlando vann nokkuð óvæntan og auðveldan sigur á Utah á útivelli 88-75, en Utah hafði ekki tapað á heimavelli fyrir leikinn. Orlando hefur unnið 8 af síðustu 9 leikjum sínum og átti furðu auðvelt með að leggja Utah, en það lið hefur einnig verið á góðum spretti undanfarið. Dwight Howard skoraði 21 stig og hirti 16 fráköst fyrir Orlando, en Carlos Boozer skoraði 21 stig og hirti 9 fráköst fyrir Utah.

Önnur óvænt úrslit urðu í Oakland í Kaliforníu þar sem Golden State lagði San Antonio 111-102, en þetta var fyrsta tap San Antonio á útivelli á leiktíðinni í átta leikjum. Golden State var án Baron Davis, en San Antonio vantaði líka Manu Ginobili. Tony Parker skoraði 28 stig fyrir San Antonio og Tim Duncan var með 22 stig, 16 fráköst og varði 6 skot. Jason Richardson skoraði 26 stig fyrir Golden State, Mike Dunleavy 20, Monta Ellis 19 og Andris Biedrins skoraði 18 stig og hirti 15 fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×