Innlent

Hefur sótt um embætti dómara

Ingimundur Einarsson, sem hafði verið valinn í starf aðstoðarlögreglustjóra hjá nýju embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, hefur sótt um embætti héraðsdómara við Héraðsdóm Reykjavíkur.

Jón H. Snorrason verður einn þriggja aðstoðarlögreglustjóra hjá nýju embætti á höfuðborgarsvæðinu um áramótin eins og greint var frá í fréttum á Stöðvar 2 í gær. Hann mun því brátt hætta sem yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra þar sem hann hefur staðið í eldlínunni frá upphafi. Eftir að ráðning Jóns til hins nýja embættis, var tilkynnt yfirmönnum lögreglunnar, herma heimildir að Ingimundur Einarsson sem nú er varalögreglustjóri í Reykjavík og verða á einn þriggja aðstoðarlögreglustjóra hjá nýju embætti sé ósáttur með ráðningu Jóns. En Jón mun verða yfirmaður lögfræði og ákærusviðs embættisins en það svið hefur heyrt undir Ingimund. Rétt eftir að Ingimundur frétti af ráðningu Jóns, föstudaginn í síðustu viku, sótti hann um embætti héraðsdómara við Héraðsdóm Reykjavíkur en umsóknarfrestur rann út sama dag. Ingimundur staðfesti að hann hefði sótt um en vildi ekkert segja um ástæður þess þegar fréttastofa náði tali af honum.

Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari hjá ríkissaksóknara, og fyrrum fulltrúi efnahagsbrotadeildarinnar mun taka við starfi Jóns H. Snorrasonar hjá ríkislögreglustjóra. Fleiri breytingar verða því Egill Stephensen, saksóknari og yfirmaður lögfræðideildarinnar í Reykjavík, mun hætta um áramótin og sinna sérverkefnum fyrir lagaskrifstofu dómsmálaráðuneytisins til fyrsta júli. Þá fer hann í embætti saksóknara hjá ríkissaksóknara.

Eins og staðan er nú eru þessir menn í æðstu stöðum í nýju embætti á höfuðborgarsvæðinu. Lögreglustjóri er Stefán Eiríksson, aðstoðarlögreglustjórar verða Jón H. Snorrason, Hörður Jóhannesson og Ingimundur Einarsson. Yfirlögregluþjónar verða þeir Friðrik Smári Björgvinsson, Geir Jón Þórisson og Egill Bjarnason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×