Sport

Heimsókn verknámskennara hrossaræktardeildar

Tamninganemar sem stunda nám sitt á öðru ári við Hrossaræktardeild Hólaskóla taka á vorönn 2007, fimm mánaða verknám. Verknámið er tekið við tamningastöðvar vítt og breitt um landið. Hólaskóli leggur mikla áherslu á að hafa gott samband við þá aðila sem taka nemendur í verknám, verknámskennarana. Það hefur til nokkurra ára verið árvisst að bjóða þeim til fundar á Hólum að hausti, þar sem farið er ítarlega yfir verkefni verknámsins.

Nú er orðin skylda að verknámskennarar sem ekki hafa haft verknema áður mæti til þessa fundar og lögð áhersla á að verknámskennarar komi til þessar fundar með reglulegu millibili.

Verknámið 2007 mun standa yfir frá fyrstu dögum janúarmánaðar til 25. maí. Á þessu tímabili eru tvö stór prófverkefni, annars vegar frumtamning á 5 tryppum í um 11 vikur og hins vegar í seinni hluta verknámsins er framhaldsþjálfun á 5 hrossum í um 7 vikur og þurfa þau hross að vera a.m.k. frumtamin þegar þau byrja verkefnið.

Kynningin á verknáminu fór fram þann 23. nóvember og hófst kl. 13 með fundi nemenda, verknámskennara og kennara skólans sem að verknáminu koma í hátíðarsal skólans. Þar var farið yfir verkefni verknámsins, nemendur og verknámskennarar fengu í hendur nákvæmar lýsingar á verkefnunum og skrifað var undir verknámssamninga.

Að því loknu um kl. 14 var haldið niður í Þráarhöllina þar sem fram fór sýnikennsla í þeim vinnubrögðum sem ætlast er til að nemendur noti við frumtamningu og þjálfun hesta. Í sýnikennslunni var farið hratt yfir frumtamningaferilinn, frá fyrstu nálgun að fyrstu stigum að undirbúningi töltþjálfunar. Síðan var einnig stutt sýning á vinnubrögðum við þjálfunarhestinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×