Innlent

Segir uppsögn Margrétar fullkomlega eðlilega

Uppsögn Margrétar Sverrisdóttir, framkvæmdastjóra Frjálslynda flokksins, í gærkvöld var fullkomlega eðlileg, segir Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður flokksins. Hann vísar því á bug að uppsögnin tengist gagnrýni Margrétar á Jón Magnússon og innlegg hans um málefni innflytjenda. Margrét ætlar þrátt fyrir allt að taka sæti á lista flokksins ef hún nær því í forvali.

Margéti var sagt upp í gærkvöld á þeirri forsendu að hún yrði að eimnbeita sér að eigin kosningabaráttu, en Margrét telur þær skýringar yfirvarp. Uppsögnin tengist gagnrýni hennar á umdeild ummæli Jóns Magnússonar um málefni innflytjenda.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður flokksins segir þetta fráleitt og vart svaravert. Segir hann að Jón sé maður útí bæ sem hafi ekki sóst eftir neinum vegtyllum innan flokksins. Segir Guðjón að þessi uppsögn sé fullkomlega eðlileg. Það sé búist við því að Margrét verði þingmaður fyrir flokkinn í vor og ekki rétt að hún sé að fá greidd laun þar eftir bæði sem þingmaður og sem framkvæmdastjóri flokksins. Margrét fái laun út apríl enda eigi hún uppsagnarfrest og orlof.

Guðjón segir að það sé einnig nauðsynlegt að þingflokkurinn geti notið óskiptra starfskrafta framkvæmdastjórans í aðdraganda kosninga sem gangi varla eftir þegar hún sé í kosningabaráttu.

Þrátt fyrir þessi átök ætlar Margrét að taka sæti á lista flokksins fái hún það í forvali. Hún stendur við fullyrðingar sínar um tengsl uppsagnarinnar og andstöðu gegn innflytjendaumræðu Jóns. Segir Margrét að hún vilji ekki að sérstakir hópar séu litnir hornauga og það að tala um kynþætti og trúarhópa eigi ekki heima í þessari umræðu.

Margrét ætlar að ræða uppsögn sína við miðstjórn flokksins þar sem þingflokkurinn geti aðeins sagt henni upp sem framkvæmdastjóra þingflokksins en ekki sem framkvæmdastjóra flokksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×