Innlent

„Við erum mjög uggandi yfir stöðunni“

Bjarki Sigurðsson skrifar
Salvör Nordal er umboðsmaður barna.
Salvör Nordal er umboðsmaður barna. Vísir/Stefán

Umboðsmaður barna segist uggandi yfir löngum biðlistum hvað varðar úrræði fyrir börn með vanda. Ekkert sé mikilvægara en að hlúa að börnunum. 

Þúsundir barna eru á biðlista eftir ýmiskonar úrræðum sem koma að greiningum og geðheilbrigðisþjónustu. Biðtími eftir ADHD-greiningu er tvö ár og þrjú ár þegar grunur leikur á um einhverfu.

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, óskaði eftir upplýsingum frá þremur ráðuneytum um hvað þau ætli að gera til að vinna í þessum biðlistum. Svar barst frá heilbrigðisráðuneytinu, dómsmálaráðuneytið bíður eftir upplýsingum frá sýslumanni en ekkert hefur borist frá barnamálaráðuneytinu.

„Við erum mjög uggandi yfir stöðunni og ætlum að skoða enn betur hvernig staðan er hjá sveitarfélögunum. Við erum að gefa ákveðna mynd af stöðunni en hún er kannski enn verri en hún birtist hjá okkur,“ segir Salvör. 

Það sé ekki nýtt að biðlistar séu langir en þeir séu að lengjast meira og meira með hverju árinu.

„Það verði ekki bara gert átak, vegna þess að við þurfum meira en átak. Við þurfum viðvarandi aðstæður þannig að börn geti fengið þjónustu þegar þau þurfa á henni að halda,“ segir Salvör.

Ofbeldi ungmenna hefur aldrei verið jafn áberandi og nú. Hnífaburður virðist vera síalgengari og nýlega lést sautján ára stúlka eftir hnífstungu á Menningarnótt. Grípa þurfi börn í vanda á réttum tíma.

„Það er ekkert eins mikilvægt og að koma vel fram við börn og hlúa að börnunum. Það er ekkert í samfélaginu eins mikilvægt. Þannig ef við getum tekið höndum saman og virkilega tekið utan um börnin okkar. Veitt þeim rétt úrræði þegar þau þurfa á þeim að halda og stutt þau til þroska. Þá erum við að gera vel,“ segir Salvör. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×