Innlent

Eigin sann­færing út­skýri sögu­legan klofning Sjálf­stæðis­manna

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Friðjón Friðjónsson, borgarfulltrúi, segir Sjálfstæðismenn í borginni hafa viljað standa með sinni sannfæringu.
Friðjón Friðjónsson, borgarfulltrúi, segir Sjálfstæðismenn í borginni hafa viljað standa með sinni sannfæringu. Vísir/vilhelm

Borgarstjóri segir að uppfærður samgöngusáttmáli muni með tíð og tíma leiða til þess að auðveldara verður fyrir borgarbúa að komast leiðar sinnar. Sáttmálinn var samþykktur í gær en Sjálfstæðisflokkurinn var þríklofinn í afstöðu sinni. Borgarfulltrúi flokksins sem sat hjá við afgreiðslu segir að þau hafi viljað leyfa sér að standa með eigin sannfæringu.

Uppfærður samgöngusáttmáli var samþykktur í borgarstjórn í borgarstjórn í gær. Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, segir sáttmálann fela í sér fjölmargar aðgerðir sem miði að því að greiða fyrir flæði umferðar á höfuðborgarsvæðinu.

„Fjölbreyttar aðgerðir bæði fyrir einkabílinn, með mislægum gatnamótum með stokkum og göngum en líka bættar almenningssamgöngur þannig að þær verði skilvirkar og áreiðanlegar og svo mikil sókn í hjólastígum og það sem ég hef mikinn áhuga á, bætt ljósastýring á umferðarljósunum,“ segir borgarstjóri.

Segir Sjálfstæðismenn í borginni skorta stefnu í samgöngumálum

Ef við gefum okkur að hjáseta sé afstaða þá var Sjálfstæðisflokkurinn í borginni þríklofinn í afstöðu til málsins. Einn greiddi atkvæði með, fjórir greiddu atkvæði gegn og einn sat hjá. Einar segir að honum virðist Sjálfstæðisflokkurinn í borginni ekki hafa neina stefnu í samgöngumálum í Reykjavík.

„Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík vinnur gegn stefnu formannsins, gegn stefnu flokksráðsfundar sem var samþykkt núna nýlega, gegn stefnu sjálfstæðismanna í sveitarfélögunum í kringum Reykjavík og það er sorglegt að horfa á það hvað þau eru ósamstíga og atkvæðagreiðslan í gær leiddi það í ljós,“ segir Einar Þorsteinsson.

Friðjón Friðjónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem sat hjá við afgreiðslu málsins, segir flokkinn stóran og að innan hans rúmist ólíkar skoðanir.

„Sum okkar kjósa að líta á glasið hálf fullt í þessu máli, og önnur hálf tómt og aðrir sjá bara hálft glas. Við nálgumst þetta öll á ólíkum forsendum og tókum þá ákvörðun að leyfa okkur að standa með eigin sannfæringu vegna þess að við höfum ólíka afstöðu.“

Vildu flýta Miklubrautargöngum

Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram tillögu í gær um að ráðast fyrr í Miklubrautargöng sem borgarfulltrúar telja að sé einna mikilvægast til að greiða fyrir umferð.

„Og klára það um það leyti sem þau eiga að hefjast í skipulagi og plani samgöngusáttmálans og okkur finnst einmitt vera mikil innviða-og samgöngubótaskuld á höfuðborgarsvæðinu. Milljörðum á milljörðum ofan hefur verið varið í alls konar samgönguverkefni um allt land en lítið gerst á höfuðborgarsvæðinu síðustu tíu til fimmtán árin. Þess vegna meðal annars lögðum við fram þessa tillögu um að flýta Miklubrautargöngum sem meirihlutinn hafnaði,“ segir Friðjón.


Tengdar fréttir

Erfitt að fylgja þræði í hugmyndum borgarfulltrúans

Framkvæmdastjóri Betri samgangna segir leiðinlegt að Borgarlínuframkvæmdir séu ekki komnar lengra en með nýjum samgöngusáttmála verði farið á fullt. Hann botnar lítið í hugmyndum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem ýmist stingur upp á fimmfalt dýrari lausn eða ódýrari. 

Miklar tíma­móta­á­kvarðanir í sam­göngu­sátt­mála

Vegamálastjóri segir ákvörðun um göng undir Miklubraut og aðrar stórframkvæmdir í samgöngusáttmála marka mikil tímamót. Nú geti raunverulegur undirbúningur hafist. Verkefni sáttmálans muni gerbreyta samgöngum á höfuðborgarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×