Innlent

Tímamót við Kárahnjúkavirkjun

Búið er að opna aðrennslisgöngin sem ætlað er að flytja Jöklu úr Hálslóni yfir í stöðvarhúsið í Fljótsdal. Borað var í gegnum síðasta haft ganganna klukkan hálf ellefu í morgun.

Bilun varð í einum bornum í gær sem varð til þess að opnun gagnanna seinkaði. Gert var við borinn í nótt og að sögn Sigurðar Arnalds, talsmanns Landsvirkjunar, gekk allt ljómandi vel í morgun. Borarnir hittust ekki nákvæmlega heldur var um sjötíu sentímetra skekkja. Þegar síðasta haftið var brotið í morgun braust út mikill fögnuður meðal viðstaddra. Bæði kínverskir og ítalskir bormenn réðu sér vart af kæti og veifuðu ákaft þjóðfánum sínum.

Yfirmenn Landsvirkjunar á svæðinu telja í raun um stærsta áfanga virkjunarframkvæmdanna að ræða en aðeins gangsetning virkjunarinnar telst meiri tímamót. Ástæðan er sú að jarðgangagerðin er bæði dýrasti verkþátturinn og um leið sá sem mest óvissa var um.

Þrír risaborar hafa í tvö og hálft ár borað neðanjarðargöng sem hafa munu það hlutverk að flytja stórfljót Austurlands tugi kílómetra. Bor eitt lagði af stað frá fjallsbrún ofan stöðvarhússins í Fljótsdal og boraði 14,7 kílómetra en verkefni hans lauk í haust. Bor tvö var settur inn á miðri leið til að bora í átt að Hálslóni og á hann 10,3 kílómetra að baki. Bor þrjú hefur séð um legginn frá Hálslóni og er búinn með 14,6 kílómetra.

Við sýnum myndir frá því þegar borað var í gegnum síðasta haft ganganna í kvöldfréttum okkar á Stöð 2 klukkan 18:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×