Erlent

Fáránlegt að leysa upp íraska herinn

Breskir hermálasérfræðingar eru hvassyrtir í fordæmingum sínum á Bandaríkjamönnum, eftir að í ljós kom að breska ríkisstjórnin gerði allt sem hún gat til þess að fá þá ofan af því að leysa upp Íraska herinn, og reka nánast alla opinbera starfsmenn.

Sú ákvörðun er af mögum talin ein helsta orsök þess hvernig nú er ástatt í landinu. Hermálasérfræðingar um allan heim voru furðu lostnir yfir ákvörðun Bandaríkjamanna á sínum tíma. Þótt íraski herinn hafi verið óvinur, hafi hann verið gersigraður og sjálfsagt tekið því fengins hendi að fá nýtt hlutverk við að halda uppi lögum og reglu í landinu.

Innan hersins var einnig mikil þekking sem hefði nýst við uppbyggingu í Írak. Verkfræðisveitir hans hefðu getað gert við brýr og komið á vatni og rafmagni, sem hinn fámenni innrásarher réði enganvegin við.

Sömuleiðis brustu innviðir embættismannakerfisins þegar þar var hreinsað til, sem leiddi til þess að allt fór úrskeiðis í launagreiðslum, innkaupum og stjórnun opinberra stofnana sem eru hverju landi nauðsynlegar.

Sem fyrr segir var talið að þetta hefði verið vanhugsuð skyndiákvörðun Bandaríkjamanna. Nú hefur komið í ljós að breska ríkisstjórnin reyndi hvað hún gat til að fá þá ofan af þessu, og þykir mörgum Bretum þá sem þáttaka þeirra í stríðinu hafi verið goldin enn hærra verði en áður var talið.

Bandarískir herforingjar voru á sínum tíma einnig mjög á móti því að íraski herinn yrði leystur upp, en máttu sín lítils gegn Donald Rumsfeld og gengi hans, í Washington.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×