Erlent

Bjart er yfir beljunum

Þýskir lögregluþjónar gripu til skotvopna þegar þeir komu á bóndabæ suður af Frankfurt, til þess að framfylgja lögum um að kýr skuli hafa dagsbirtu í fjósum sínum. Viðkomandi bóndi geymdi kýr sínar í gluggalausu útihúsi.

Hann var ekki aldeilis á því að láta segja sér fyrir verkum um meðferð á dýrum sínum. Hann vopnaðist exi og kúbeini og réðst gegn löggunum tveimur. Eftir að bóndinn slasaði annan lögregluþjóninn, sem reyndi að afvopna hann, dró hinn upp skammbyssu sína. Hann skaut fyrst aðvörunarskotum og svo bóndann í fótinn.

Lögreglan segir að það verði örugglega gluggi í fangaklefanum sem bóndinn fær að gista fyrir brot gegn valdstjórninni. Og það er líka bjartara yfir beljunum hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×