Erlent

Dauðadómur í Líbíu

Dómstóll í Líbíu hefur dæmt fimm búlgarskar hjúkrunarkonur og palestínskan lækni til dauða fyrir að myrða rúmlega fjögur hundruð líbönsk börn. Þeim er gefið að sök að hafa sýkt börnin viljandi með HIV-vírusnum sem veldur alnæmi.

Hjúkrunarkonurnar og læknirinn hófu störf í bænum Benghazi árið 1998. Ári síðar voru þau ákærð fyrir að hafa viljandi smitað fjögur hundruð tuttugu og sex börn. Síðan málið var tekið til meðferðar hafa fimmtíu og tvö þeirra látist.

Fólkið var sakfellt og dæmd til dauða árið 2004, en sá dómur var kærður til hæstaréttar sem ógilti hann á þeim forsendum að málsmeðferð hefði verið ábótavant.

Málið var þá tekið fyrir á ný og nú liggur dómur undirréttar fyrir. Honum verður áfrýjað. Verjendur segja HIV veiruna hafa skotið sér niður á sjúkrahúsinu áður en ákærðu hafi komið til starfa þar. Þau drógu upphaflegar játningar til baka og sögðust hafa verið pyntuð.

Ashraf al-Hazouz, einn sakborninga, segir ekki hægt að trúa því sem fram komi í líbískum fjölmiðlum. Allt sem hafi komið fram við réttarhöldin sé lygi. Logið sé til um að þau tengist málinu og ekki byggt á læknisfræðilegum rökum eða lagalegum. Evrópuríki, Bandaríkin og alþjóðleg mannréttindasamtök segja hjúkrunarkonurnar og lækninn blórabögla. Ekki sé tekið á hreinlætismálum í sjúkrahúsum í Líbíu.

Ættingjar barnanna fögnuðu þegar dómurinn lá fyrir í morgun. Ibrahim Mohammed al-Aurabi, faðir eins barnsins, segir þetta dóm fyrir alla frjálsa Líbíumenn. Dómurinn gleðji alla landa sína. Hann sagði þetta sigur fyrir líbískt réttarkerfi og blessun frá Guði.

Líbísk stjórnvöld hafa farið fram á það að ættingjum hvers barns verði greiddar jafnvirði rúmlega níu hundruð milljónum íslenskra króna í bætur. Þá yrði dómurinn mildaður. Þessu tilboði hefur verið hafnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×